Sveitarfélagið Ölfuss hefur keypt íþróttamiðstöðina í Þorlákshöfn af eignarhaldsfélaginu Fasteign. Kaupverðið er ríflega 900 milljónir króna, fjármagnað með lánum frá Lánasjóði sveitarfélaganna.
Samkvæmt hefðbundnum lánareglum eru tekjur sveitarfélagsins að veði.
Að sögn Gunnsteins Ómarssonar sveitarstjóra hafa kaupin engar auknar skuldbindingar í för með sér. „Mönnum reiknast til að til framtíðar litið sé þarna um að ræða verulega jákvæð áhrif á fjármál sveitarfélagsins,“ segir Gunnsteinn, en með kaupunum eignfærist húsnæðið á sveitarfélagið í stað þess að það borgi fyrir það leigu líkt og með þáverandi samningum við Fasteign.
Gunnsteinn segir engan ágreining hafa verið innan sveitarstjórnar um kaupin og þau samþykkt samhljóða.
Skammt er síðan Vestmannaeyjabær keypti eignir út úr fasteignafélaginu en slíkt hið sama er til skoðunar í Grímsnes- og Grafningshreppi.