Bæjarráð Árborgar samþykkti í gærmorgun að kaupa miða á leiksýninguna Footloose hjá Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurlands, fyrir alla nemendur í 10. bekkjum grunnskóla Árborgar.
Bæjarráði hafði borist styrkbeiðni frá Nemendafélagi FSu vegna uppsetningarinnar og var í kjölfarið samþykkt að kaupa miða á leiksýninguna fyrir alla nemendur í 10. bekk í Árborg.
Bæjarráð lagði til við bæjarstjórn að samþykktur verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kostnaðar við miðakaupin.
Miðaverð á sýninguna er 2.500 krónur, svo ætla má að kostnaður við miðakaupin sé um það bil 300 þúsund krónur fyrir 120 tíundubekkinga.
Footloose var frumsýnt í menningarsalnum í Hótel Selfossi í gærkvöldi og fékk glimrandi viðtökur áhorfenda.