Minnihlutinn í hreppsnefnd Rangárþings ytra gerði á síðasta fundi athugasemdir við innkaup á tölvum fyrir Grunnskólann á Hellu þar sem þau voru gerð án útboðs.
Minnihlutinn vísaði í minnisblað aðalbókara sveitarfélagsins að innkaupareglum hafi ekki verið fylgt í aðdraganda kaupanna.
„Innkaup voru gerð fyrir alls um tíu milljónir króna án útboðs eða verðfyrirspurnar en í innkaupareglum segir að hafa þurfi útboð þegar vörukaup fara yfir um 4,4 milljónir króna,“ segir í bókun minnihlutans. Á-listinn segir að Drífa Hjartardóttir, sveitarstjóri, beri þar höfuðábyrgð, enda í verkahring hennar að skrifa upp á og ábyrgjast öll innkaup sem eru hærri en 400 þúsund krónur. „Ef undirmönnum sveitarstjóra er óljóst um hvaða reglur gilda, er það í verkahring sveitarstjóra að kynna þær og sjá til þess að eftir þeim sé farið.“
Í svari fulltrúa D-listans kom fram að um tvö aðskilin mál hafi verið að ræða. Annars vegar endurnýjun á tölvum nemenda sem ákveðið var að taka á rekstrarleigu hjá TRS að undangenginni könnun á hagkvæmustu leiðum. Hins vegar var um að ræða kaup á spjaldtölvum fyrir kennara.
„Hagstætt tilboð fékkst frá innflytjanda á slíkum búnaði og var því tekið. Heildarfjárhæð þeirra kaupa fór lítillega fram úr viðmiðunartölu í innkaupareglum varðandi útboð og hefur sveitarstjóri vísað ábyrgð á því á sínar hendur,“ segir í bókun D-listans.