Kaupmenn á Selfossi sem sunnlenska.is ræddi við eru ánægðir með jólaverslunina hingað til, en tveir stórir verslunardagar eru eftir fram að aðfangadegi.
„Það er mikil aukning á milli ára og sumar vörur voru að klárast þegar vika var til jóla,“ segir Sverrir Einarsson verslunarstjóri í Húsasmiðjunni á Selfossi. Að sögn Sverris hefur jólaverslunin gengið frábærlega hjá þeim í Húsasmiðjunni og Blómavali.
„Auðvitað hefur tíðarfar einhver áhrif en ekki mikið hjá okkur tel ég að minnsta kosti. Við erum með svo margt sem hægt er að nefna, verkfæri, heimilistæki bæði stór og smá og auðvitað gjafavöruna í Blómavali,“ segir Sverrir.
Stóraukning á milli ára
Marinó Magnús Guðmundsson, verslunarstjóri í Rúmfatalagernum á Selfossi, tekur í sama streng og Sverrir. „Jólaverslunin hefur gengið frábærlega. Það er stóraukning milli ára og sérstaklega eftir að við fluttum í Kjarnann. Fólk byrjar einnig fyrr að skreyta en hefur verið.“
Aðspurður út í vinsælar jólagjafir þá segir Marinó að sængur, koddar og rúmföt hafi verið vinsælustu gjafirnar hja Rúmfatalagernum síðastliðin ár og séu það enn.
Marinó telur að gott tíðarfar undanfarna daga hafi áhrif á jólaverslunina á Selfossi. „Fólk er að fara í sérverslanir og nýtir ferðina og klárar allt í Reykjavík.“
Fór hægt af stað
Bylgja Þorvarðardóttir, verslunarstjóri í Sportbæ á Selfossi, segir að jólaverslunin hafi farið hægt af stað en sé að taka við sér núna. „Eins og er þá er ekki aukning á milli ára, hvort það sé tíðarfarið, netverslun eða verslunarferðir erlendis er ekki gott að segja.“
Bylgja segir að verslunin eigi marga fasta kúnna. „Það er alltaf jafn yndislegt að þjónusta tryggu kúnnana okkar og þeir eru allmargir, sem betur fer og erum við þeim mjög þakklát.“
Aðspurð út í vinsælar jólagjafir segir Bylgja að íþróttafatnaður frá Nike og Adidas séu alltaf jafn vinsælar fyrir bæði unga sem aldna enda þægilegur og flottur fatnaður.
Skiptir máli á hvaða vikudögum jólahátíðin lendir
„Mér finnst jólaverslun vera svipuð og síðustu ár, annars veit maður aldrei nákvæmlega hvernig hún verður fyrr en maður skellir í lás á aðfangadag,“ segir Elín Gunnlaugsdóttir hjá Bókakaffinu á Selfossi.
„Verslunin getur dreifst svo misjafnlega eftir því á hvaða vikudögum jólahátíðin lendir. Einnig held ég að gott tíðarfar geri það að verkum að fólk sé afslappaðra,“ segir Elín.
„Það má segja að við verðum áþreifanlega vör við það þessi jól að við búum í landbúnaðarhéraði því sú bók sem er hvað vinsælust hjá okkur er Forystufé eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp og er hún að verða uppseld hjá okkur,“ segir Elín aðspurð út í vinsælustu bækurnar fyrir þessi jól.
„Aðrar bækur sem eru vinsælar eru Heiða fjalldalabóndinn skráð af Steinunni Sigurðardóttur. Ljóðabók Sigurðar Pálssonar Ljóð muna rödd hefur líka verið ákaflega vinsæl. Íslandsbók barnanna er vinsælasta barnabókin og af lífsstílsbókum má segja að Máttur matarins sé hvað vinsælust,“ segir Elín að lokum.