Kennarar í áfalli gengu á dyr

Vallaskóli á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Kenn­ar­ar um allt land hafa gengið út af vinnu­stöðum sín­um eft­ir að Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga hafnaði inn­an­hústil­lögu sem rík­is­sátta­semj­ari lagði fram í kenn­ara­deil­unni.

Í tölvupósti til forráðamanna segir Hermann Örn Guðmundsson, skólastjóri Sunnulækjarskóla á Selfossi, að í framhaldi af þessari ákvörðun SÍS hafi kennarar á landsvísu lagt niður störf frá kl. 12:00 í dag. Foreldrar í 1.-4. bekk voru beðnir um að sækja börn sín en stjórnendur og aðrir starfsmenn utan KÍ sinntu nauðsynlegri gæslu þar til börnin yrðu sótt.

Samkvæmt tilkynningu frá Páli Sveinssyni, skólastjóra Vallaskóla á Selfossi, tilkynntu kennarar við skólann stjórnendum að þeir væru í áfalli vegna ákvörðunar SÍS, þeir upplifðu fullkominn trúnaðarbrest og vantraust frá sveitarfélögum landsins og treystu sér ekki til að halda uppi kennslu í kjölfarið.

Sömuleiðis mótmæltu kennarar í Stekkjaskóla á Selfossi stöðunni sem upp er komin og gengu út. Nemendur í 5.-7. bekk voru sendir heim en stuðningsfulltrúar og aðrir en kennarar gættu nemenda í 1.-4. bekk þar til skóladeginum lauk.

Kennarar í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri gengu sömuleiðis út í dag, á mið- og elsta stigi kl. 12:05 á Eyrarbakka og 13:15 á Stokkseyri. Kennarar í 1.-4. bekk voru með nemendum þar til skóla lauk kl. 13:15 en gengu svo út.

Fyrri greinBúrfellslundur verður Vaðölduver
Næsta greinGræni hlutinn á að snúa upp þegar tré eru gróðursett