Kennarar um allt land hafa gengið út af vinnustöðum sínum eftir að Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði innanhústillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í kennaradeilunni.
Í tölvupósti til forráðamanna segir Hermann Örn Guðmundsson, skólastjóri Sunnulækjarskóla á Selfossi, að í framhaldi af þessari ákvörðun SÍS hafi kennarar á landsvísu lagt niður störf frá kl. 12:00 í dag. Foreldrar í 1.-4. bekk voru beðnir um að sækja börn sín en stjórnendur og aðrir starfsmenn utan KÍ sinntu nauðsynlegri gæslu þar til börnin yrðu sótt.
Samkvæmt tilkynningu frá Páli Sveinssyni, skólastjóra Vallaskóla á Selfossi, tilkynntu kennarar við skólann stjórnendum að þeir væru í áfalli vegna ákvörðunar SÍS, þeir upplifðu fullkominn trúnaðarbrest og vantraust frá sveitarfélögum landsins og treystu sér ekki til að halda uppi kennslu í kjölfarið.
Sömuleiðis mótmæltu kennarar í Stekkjaskóla á Selfossi stöðunni sem upp er komin og gengu út. Nemendur í 5.-7. bekk voru sendir heim en stuðningsfulltrúar og aðrir en kennarar gættu nemenda í 1.-4. bekk þar til skóladeginum lauk.
Kennarar í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri gengu sömuleiðis út í dag, á mið- og elsta stigi kl. 12:05 á Eyrarbakka og 13:15 á Stokkseyri. Kennarar í 1.-4. bekk voru með nemendum þar til skóla lauk kl. 13:15 en gengu svo út.