Kennarar í FSu samþykkja verkfall

Fjölbrautaskóli Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi var einn þeirra skóla þar sem félagsmenn aðildarfélaga Kennarasamband Íslands kusu um verkfallsaðgerðir í lok október. Verkfallið var samþykkt og hefst það 29. október og stendur til 20. desember, hafi samningar ekki náðst.

Félagsmenn fimm aðildarfélaga Kennarasambands Íslands hafa samþykkt verkföll í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum og einum framhaldsskóla.

Kjörstjórn KÍ kynnti í hádeginu niðurstöður atkvæðagreiðslna um verkfallsaðgerðir. Meirihluti í öllum skólunum sagði já við fyrirhuguðum verkföllum og er áformað að aðgerðir hefjist 29. október.

Atkvæðisrétt höfðu félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambandsins sem starfa í viðkomandi skólum og taka laun samkvæmt kjarasamningum KÍ. Þetta voru félagsmenn í Félagi grunnskólakennara, Félagi leikskólakennara, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi stjórnenda í framhaldsskólum og Skólastjórafélagi Íslands.

Auk Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa verkföll verið boðið í Leikskóla Seltjarnarness, Leikskólanum Holti í Reykjanesbæ, Leikskólanum Drafnarsteini í Reykjavík, Leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki, Áslandsskóla í Hafnarfirði, Laugalækjarskóla í Reykjavík og Lundarskóli á Akureyri. Verkföll í þessum skólum skella á 29. október og standa til 22. nóvember, hafi samningar ekki náðst.

Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna KÍ í einum tónlistarskóla. Þar er boðað að verkfall hefjist 29. október og standi til 20. desember. Niðurstaða þessarar atkvæðagreiðslu verður gerð heyrinkunn á morgun, föstudaginn 11. október.

Fyrri greinMilljónamiði í Hveragerði
Næsta greinFjöldi umferðaróhappa í hálkunni