Bæjarstjórn Árborgar ætlar að fella úr gildi bann við „lausagöngu“ katta. Ákvörðunin kemur í kjölfar ályktunar Dýralæknafélags Íslands um að bannið sé óboðlegt.
Ný kattasamþykkt sveitarfélagsins var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn í fyrrasumar. Sunnlenska vakti fyrst athygli á hinu óvenjulega ákvæði í vor og vakti málið umtal. Í kjölfarið hóf dýrafangari sveitarfélagsins að taka harðar á lausum köttum.
Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, segir að nýr meirihluti hafi látið endurskoða 5. grein samþykktarinnar. Niðurstaðan hafi verið sú, að köttum væri ekki eðlislægt að vera bundnir og krafan um að þeir skuli „ekki lausir úti við í þéttbýli“ því óraunhæf. „Tilgangslausar reglur er best að afnema,“ segir Eyþór.
Er reglan frumsamin?
Regluna um að kettir skuli ekki lausir í þéttbýli er að finna í Árborg og Norðurþingi, eftir því sem Sunnlenska kemst næst við leit í Stjórnartíðindum. En hver samdi hana? „Regluna er upphaflega að finna í kattasamþykkt sveitarfélagsins frá árinu 2005,“ útskýrir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar. „Þáverandi landbúnaðarnefnd ákvað reglur um hunda- og kattahald á sínum tíma. Tilefnið var ami af lausum köttum á Selfossi, skilst mér. Óljóst er hvort ákvæðið hafi verið frumsamið.“
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu PANTA ÁSKRIFT