Keypti pizzu með fölsuðum seðli

Um helgina var falsaður 500 króna seðill notaður til greiðslu á pizzu hjá Domino’s á Selfossi. Seðillinn var mjög krumpaður og lítið eitt minni en raunverulegur seðill.

Nokkuð hefur verið lagt í gerð seðilsins en bæði er vatnsmerki í seðlinum og þræddur í hann silfurþráður eins og í raunverulegum seðli.

Ekki er vitað hver notaði seðilinn en málið hefur verið kært og er til rannsóknar.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is eru mál sem þessi ekki algeng í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Þar hafa komið upp 1-2 mál á hverju ári en oftast er þá um að ræða ljósritaða seðla sem augljóslega eru falsaðir.

Lögreglan á Selfossi telur rétt að benda afgreiðslufólki á að hafa þetta í huga þegar tekið er við peningaseðlum.

Fyrri greinOftast strikað yfir Ásmund
Næsta greinHamri spáð falli