KFR og Uppsveitir töpuðu leikjum sínum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu um helgina.
KFR tók á móti Höfnum á Leiknisvellinum í Breiðholti í dag í býsna fjörugum leik. Bjarni Þorvaldsson kom KFR yfir á 17. mínútu en Hafnir jöfnuðu á 25. mínútu. Tvö rauð spjöld fóru á loft áður en fyrri hálfleikur var búinn því liðsstjóri og einn leikmaður Hafna fengu reisupassann á 34. mínútu. Staðan var 1-1 í hálfleik.
Helgi Valur Smárason kom KFR aftur yfir á 53. mínútu en manni færri röðuðu Hafnamenn inn mörkum í kjölfarið. Þeir skoruðu fjögur mörk á þrettán mínútna kafla og staðan skyndilega orðin 1-5. Bjarni skoraði aftur fyrir KFR á 75. mínútu en fleiri urðu mörkin ekki. Rauðu spjöldunum fjölgaði hins vegar því á 82. mínútu fékk leikmaður Hafna sitt annað gula spjald og luku þeir því leik 9 á móti 11. Lokatölur 5-3.
Uppsveitir töpuðu 5-2 þegar liðið heimsótti Smára í Fagralund í Kópavogi í gærkvöldi. David Rodriguez kom Uppsveitum yfir í fyrri hálfleik en Smáramenn skoruðu tvisvar í kjölfarið og staðan var 2-1 í hálfleik.
Sölvi Freyr Freydísarson jafnaði metin á 69. mínútu en Smári komst aftur yfir þremur mínútum síðar. Vadims Senkovs fékk að líta rauða spjaldið á 79. mínútu og manni færri tókst Uppsveitum ekki að koma í veg fyrir tvö mörk heimamanna á síðustu tíu mínútunum.
KFR er í neðsta sæti riðils-1 án stiga og sama er uppi á teningnum hjá Uppsveitum í riðli-2.