Upp hefur komið staðfest tilfelli af kíghósta hjá grunnskólanemanda í 8. bekk á Selfossi. Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is.
Áður höfðu um sautján tilfelli verið staðfest á landinu öllu, flest á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Norðurlandi.
Að sögn Elínar er útbreiðsla kíghósta sem betur fer ekki hröð vegna bólusetninga.
„Verðandi mæður fá bólusetningu við kíghósta á meðgöngu, sem verndar börnin fyrstu mánuðina. Svo eru börn bólusett þriggja, fimm og tólf mánaða, fjögurra ára og aftur fjórtán ára. Fullorðnir eiga svo að passa sjálfir upp á að fá örvunarbólusetningu á 10 ára fresti,“ segir Elín og bætir við að þátttaka í barnabólusetningum sé góð á Íslandi. „En við viljum gera betur og hafa hana yfir 95%.“
Ekki þörf á sóttkví eða einangrun
Elín segir að ekki sé gerð krafa um sóttkví eða einangrun fyrir þá sem eru smitaðir eða útsettir fyrir kíghósta.
„Við mælum að sjálfsögðu með að fólk haldi sig heima þegar það er slæmt af einkennum og passi upp á almennar sóttvarnir annars. Það er ekki nauðsynlegt að fara í sýnatöku ef fólk er með einkenni og hefur verið útsett, læknir getur greint kíghósta án sýnatöku,“ segir Elín og bætir við að ekki sé nauðsynlegt að fá alla með einkenni í skoðun, aðeins þá sem eru með slæm einkenni og telja sig þurfa meðferð.
Á síðu sóttvarnalæknis og Heilsuveru eru mjög góðar upplýsingar um kíghósta. Einnig er hægt að hringja í 1700 ef fólk er í vafa.