Bæjarstarfsmenn í Ölfusi fengu ábendingu um það að einhver hefði hent kindahræjum á víðavangi upp með Gamla vegi fyrir utan þéttbýlið í Þorlákshöfn.
Sigurður Ósmann Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi, í Ölfusi segir að það eigi að vera létt fyrir þann sem þarf að losa sig við hræ að farga þeim á réttum stað í stað þess að henda þeim á víðavangi.
Hann segir að svona nokkuð hafi gerst áður í Ölfusinu en þá hafi verið hent beinum af stærri gripum við veginn út á bjarg.
Sigurður skorar á íbúa Ölfuss að ganga vel um og koma sorpi á rétta staði til förgunar. Gámasvæðið í Ölfusi er opið frá kl. 13-18 virka daga og frá kl. 13-16 á laugardögum.