Kindakol, líftækni og eitthvað fyrir grænkerann

Gróðurhúsaræktun.

Fimm teymi hafa verið valin til þátttöku í Startup Orkídeu á vegum Icelandic Startups og Landsvirkjunar.

Startup Orkídea er einstakur vettvangur fyrir þróun viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna rótgrónari fyrirtækja sem vinna að sjálfbærum lausnum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. Verkefnið byggir á alþjóðlega sannreyndri aðferðafræði og áralangri reynslu Icelandic Startups af stuðningi við frumkvöðla og sprotafyrirtæki og miðar að því að koma vöru á markað.

1000 ára sveitaþorp
1000 ára sveitaþorp ehf. í Þykkvabæ þróar vöruna Kindakol, sem eru sjálfbær og vistvæn iðnaðarkol unnin úr lífmassa líkt og kindataði og hampi.

Krakkakropp
Krakkakropp er hollt, gott og gleðilegt nasl í káta kroppa frá 6 mánaða aldri. Krakkakropp er úr íslensku grænmeti og inniheldur grænmeti sem ekki nýtist í hefðbundnar söluvörur.

Livefood ehf
Verkefnið snýst um að framleiða hágæða íslenska grænkera osta úr kartöflum og haframjólk. Notast verður við hveraorkuna í Hveragerði við framleiðslu á ostunum.

Sif Biotech
Líftæknifyrirtæki sem notfærir sér plöntur sem sveigjanlegar framleiðslueiningar fyrir próteinafurðir og líftæknilyf.

Viskur
Framleiðir grænkeramat sem líkist íslenskum sjávarafurðum. Viskur ætlar að þróa matvöru, sem kemur í stað hefðbundinna fiskafurða þar sem nýttar eru hliðarafurðir frá smáþörungaframleiðslu á Íslandi.

Teymin hafa þegar hafist handa og drekka í sig fróðleik en þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði nýsköpunar og sækja einnig fundi með fjölda leiðbeinenda úr atvinnulífinu.

Þessum teymum býðst fyrsta flokks vinnuaðstaða í hugmyndahúsinu Grósku og 1 milljón króna styrkur frá Landsvirkjun gegn kauprétti sem ætlað er að veita þeim svigrúm til að einbeita sér að nýsköpunarverkefnum sínum meðan á hraðlinum stendur. Öll teymin stefna að því að þiggja styrkinn og er sú vinna í fullum gangi.

Fyrri greinHamar í undanúrslit
Næsta greinDúdda sýnir í Listagjánni