Biskup Íslands hefur auglýst laust til umsóknar embætti sóknarprests í Kirkjubæjarklaustursprestakalli. Skipað er í embættið frá 15. nóvember næstkomandi til fimm ára.
Fráfarandi sóknarprestur, sr. Ingólfur Hartvigsson, hefur verið fastráðinn sjúkrahúsprestur við Landspítalann.
Í Kirkjubæjarklaustursprestakalli eru fjórar sóknir; Grafar-, Langholts-, Prestsbakka- og Þykkvabæjarklausturssóknir.
Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda og velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. Kjörnefnd Kirkjubæjarklaustursprestakalls kýs svo prest úr hópi umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar.
Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis mánudaginn 9. september.