Stjórn Kirkjubyggingarsjóðs Laugarvatnshjónanna Ingunnar og Böðvars hefur ákveðið að slíta sjóðnum og leggja fjármuni hans til uppbyggingar í sóknarstarfi í nágrenni Laugarvatns.
Lagðar verða 5 milljónir króna í sjóð til kaupa á flygli fyrir Skálholtskirkju og rúmar 3,4 milljónir króna til uppbyggingar við grafreitinn á Laugarvatni og annarra umbóta.
Þriggja manna stjórn sjóðsins er tilnefnd af sóknarnefnd Miðdalskirkju, sveitarstjórn Bláskógabyggðar og ættarráði Laugarvatnsættar. Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins hefur stjórnin full umráð yfir sjóðnum, en ákvörðunin um að slíta sjóðnum og gefa féð er tekin að lokinni kynningu fyrir þessum aðilum.
Hugmyndir um kirkju náðu aldrei flugi
Kirkjubyggingarsjóðurinn var stofnaður að frumkvæði Jensinu Halldórsdóttur, skólastjóra Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni, á útfarardegi Ingunnar 3. maí 1969. Auk Jensínu lögðu kennarar og nemendur skólans fé til sjóðsins við stofnun hans, en síðar rann fé til sjóðsins með sölu minningarkorta og ýmsum gjöfum. Hugmyndin um kirkjubyggingu á Laugarvatni náði þó aldrei flugi og smám saman minnkuðu tekjur sjóðsins og lögðust síðan alveg niður. Hefur sjóðurinn staðið óhreyfður um áratugaskeið.
Hjónin Ingunn Eyjólfsdóttir og Böðvar Magnússon tóku við búi á Laugarvatni, ættaróðali Ingunnar, árið 1907. Þau seldu jörðina íslenska ríkinu árið 1928 til að þar mætti rísa héraðsskóli. Laugarvatn varð með tímanum mikið skólasetur og voru þar starfræktir fimm skólar er mest var. Ingunn og Böðvar áttu heimili á Laugarvatni til æviloka. Böðvar gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, var m.a. hreppstjóri í 54 ár og sat um áratugaskeið í hreppsnefnd, sýslunefnd, sóknarnefnd og byggingar- og skólanefndum á Laugarvatni. Böðvar lést 1966 á 89. aldursári og Ingunn 1969 á 96. aldursári.