Búið er að auglýsa tillögu að umhverfismati á nýrri kísilmálmverksmiðju sem ætlað er að rísi vestan við Þorlákshöfn.
Það er fyrirtækið Thorsil ehf sem hyggst reisa verksmiðjuna þar sem vinna á allt að sextíu þúsund tonn af kísilmálmi í tveimur ofnum. Mikil eftirspurn er eftir slíkum málmi á heimsmarkaði um þessar mundir, einkanlega til framleiðslu á sólarrafhlöðum.
Að sögn Hákons Björnssonar framkvæmdastjóra Thorsil eru bjartar horfur í þessum iðnaði og samningar um sölu afurðinnar fremur auðfengnir. Hákon segir að kostnaður við byggingu verksmiðjunnar sé um 30 milljarðar króna og fjármögnun í góðum farvegi. Um 85 megavött af rafmagni þarf til framleiðslunnar og samkvæmt heimildum Sunnlenska er afhending þeirrar orku innan áætlana Orkuveitu Reykjavíkur.
Verksmiðjan á að rísa á 26 hektara lóð á íðnaðarsvæði sem er í skipulagi við Suðurstrandarveg. Ætlað er að um 160 manns starfi við framsleiðslu í verksmiðjunni en um 400 manns við að reisa hana.