Reiknað er með að Kjalvegur og Fjallabaksleið nyrðri opnist um miðja næstu viku.
Í frétt á vef Vegagerðarinnar er greint frá því að ástæða þess að fjallvegir á hálendinu opnast seinna í ár en undanfarin ár er fyrst og fremst sú að það er meiri snjór á hálendinu en venjulega.
Þrátt fyrir það hefur verið mokaður snjór á fjallvegum í ár og í sumum tilvikum eins og á Kjalvegi nokkuð meira en gert hefur verið síðastliðin ár.
Mokað hefur verið í gegnum nokkur höft undanfarnar vikur en minni fjárveitingar gefa ekki tilefni til að fara í miklu umfangsmeiri snjómokstur á hálendinu en tíðkast hefur, það myndi einnig þjóna litlum tilgangi þar sem á sumum stöðum hafa legið „stöðuvötn“ yfir vegum fram undir núna. Þannig hefur það til dæmis verið á Landmannaleið.
Mokað hefur verið á Kjalvegi gegnum höft á Bláfellshálsi fyrir um 3 vikum síðan og um nýliðna helgi var mokað í gegnum höft sem voru á leiðinni norðan Kerlingafjallavegar að Hveravöllum, þetta flýtir fyrir þornun vegarins.