Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, verður settur í embætti ríkislögreglustjóra frá næstu áramótum þar til nýr ríkislögreglustjóri hefur verið skipaður.
Haraldur Johannessen hefur óskað eftir því að láta af störfum sem ríkislögreglustjóri frá og með næstu áramótum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, upplýsti um þetta á kynningarfundi í dag þar sem tilkynnt var um stofnun lögregluráðs.
Um er að ræða formlegan samráðsvettvang lögreglustjóra sem byggist á því markmiði að efla samráð og tryggja hæfni lögreglunnar til að takast sameiginlega á við þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni. Í lögregluráði munu eiga sæti allir lögreglustjórar á landinu, auk ríkislögreglustjóra sem verður formaður ráðsins.
Stærri stofnanabreytingar innan lögreglunnar eru einnig til skoðunar í ráðuneytinu svo sem sameining embætta og tilfærslur á verkefnum. Lögð er áhersla á að slíkar ákvarðanir verði teknar af yfirvegun og að vel ígrunduðu máli með það að markmiði að styrkja þjónustu lögreglu í þágu samfélagsins í samvinnu við nýjan ríkislögreglustjóra og nýtt lögregluráð.