Kjartan Björnsson, rakari og bæjarfulltrúi í Árborg, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí.
Kjartan skipaði 6. sæti D-listans sem fékk fimm menn kjörna í síðustu kosningum en hann tók sæti í bæjarstjórninni þegar Elfa Dögg Þórðardóttir sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn á miðju kjörtímabilinu.
„Það er stór ákvörðun að starfa í pólitík en eftir síðustu ár í bæjarstjórninni hef ég sannfærst um að ég get látið gott af mér leiða í þágu samfélagsins og einnig hef ég öðlast dýrmæta reynslu. Ég hef starfað á vettvangi íþrótta og menningar og hef á þeim sviðum brennandi áhuga sem og bæjarmálum almennt og vil starfa áfram í ykkar þágu ef þið treystið mér til þess,“ sagði Kjartan í tilkynningu sem hann birti á Facebook síðu sinni í kvöld.
Prófkjör D-listans í Árborg fer fram þann 22. mars næstkomandi.