Kjartan Björnsson, rakari og bæjarfulltrúi, gefur kost á sér í 1. til 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem fram fer þann 19. mars næstkomandi.
Kjartan hefur setið í bæjarstjórn Árborgar fyrir D-listann frá árinu 2012 og segist hafa öðlast dýrmæta reynslu og kynnst mörgu góðu fólki á þeim tíma.
„Ég brenn fyrir mitt samfélag og hafa menningin og íþróttir átt stærstan þátt í mínum störfum, ásamt öllum þeim fjölmörgu krefjandi verkefnum sem fylgja því að starfa fyrir íbúana á vettvangi bæjarmála,“ segir Kjartan.
Nú hafa ellefu frambjóðendur tilkynnt framboð í prófkjöri D-listans og segist Kjartan óendanlega stoltur af hópnum.
„Það er gríðarlega dýrmætt fyrir okkar samfélag að svo margt hæft fólk, konur og karlar, yngri og eldri, reynslumikið og reynsluminna skuli bjóða fram krafta sína. Í aðdraganda kosninga er teningunum kastað og gefið upp á nýtt og mér dettur ekki í hug eitt augnablik að halda að ég eigi eitthvað á nýjum lista, þó ég hafi setið þar áður,“ segir Kjartan.
„Nú sækist ég eftir umboði minna félaga í prófkjörinu 19. mars í fyrsta eða annað sætið og þetta verður lýðræðisveisla sem Sjálfstæðisflokkurinn í Sveitarfélaginu Árborg býður íbúum upp á.“