Kjötsúpan kláraðist

Hin árlega Kjötsúpuhátíð Rangárþings eystra hófst í kvöld með súpukvöldi á heimilum á Hvolsvelli og brennu og sléttusöng við Ormsvöll.

Í kvöld var flaggað hvítum fánum við nokkur heimili á Hvolsvelli þar sem boðið var upp á kjötsúpu fyrir gesti og gangandi. Fjölmargir nýttu sér þetta og kláraðist súpan víðast hvar.

„Þetta heppnaðist svakalega vel. Það komu áræðanlega um tvöhundruð manns í heimsókn til okkar og súpuskammtarnir voru eitthvað um 150,“ sagði Sigurður Jónsson, einn gestgjafanna, í samtali við sunnlenska.is. „Það er mikið líf í þorpinu og margir hafa skreytt heimili sín skemmtilega.“

Að loknu súpuáti var brenna og sléttusöngur við Ormsvöll og eftir það verður gengið fylktu liði í félagsheimilið Hvol á harmonikkudansleik fyrir alla fjölskylduna sem hefst kl. 22:30.

Á morgun, laugardag, er fjölbreytt dagskrá. Heilsustígurinn verður opnaður kl. 11 við íþróttahúsið en önnur dagskrá hefst kl. 12 og fer að mestu fram í og við Sveitamarkaðinn á Hvolsvelli. Á hátíðinni fer m.a. fram hinn árlegi hrepparígur og að þessu sinni er liði frá Vestmannaeyjum boðin þátttaka.

kjotsupukvold020911sigj_370220023.jpg
Jón Guðjónsson og Ísólfur Gylfi Pálmason taka lagið í súputjaldinu og hita upp fyrir sléttusöng. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Fyrri greinÁrborg áfram í Útsvarinu
Næsta greinSamningur um Olweusar verkefni