Matvælastofnun sektaði sláturhús á Suðurlandi í síðasta mánuði fyrir brot á dýravelferð. Einnig var sunnlenskt kúabú svipt mjólkursöluleyfi og dagsektir voru lagðar á annað kúabú á Suðurlandi vegna brota á dýravelferð.
MAST lagði 90.000 króna stjórnvaldssekt á kjúklingasláturhús á Suðurlandi en í fimm skipti á árinu 2023 voru sýnilega slasaðir kjúklingar hengdir upp í sláturlínu í umræddu húsi. Slíka kjúklinga á að aflífa strax. Í frétt frá MAST segir að brotin hafi uppgötvast eftir slátrun við eftirlit stofnunarinnar.
Þá var kúabú svipt mjólkursöluleyfi en gæði mjólkur frá búinu reyndust ófullnægjandi. Búið fær ekki leyfið að nýju fyrr en uppfylltar verða kröfur um mjólkurgæði í 1. flokki í tvær vikur samfleytt.
Annað kúabú var beitt dagsektum, sem nema 15 þúsund krónum á dag vegna brota á dýravelferð. Dagsektirnar eru úrræði til að þvinga bóndann til úrbóta. Í fjósinu reyndist of mikill þéttleiki vera í stíum, klaufhirðu var ábótavant og kálfar hafðir bundnir. Dagsektirnar verða innheimtar uns bætt hefur verið úr.