Kláraði áskorunina þrátt fyrir að vera veik af COVID

Jákvætt COVID-próf staðreynd og Valgerður komin í einangrun. Ljósmynd/Valgerður Jónsdóttir

Í byrjun október tók sunnlenska.is viðtal við Valgerði Jónsdóttur sem var í þann mund að klára ársáskorun sem fólst í því að hreyfa sig á hverjum degi í 30 mínútur.

Þegar tveir dagar voru eftir af áskoruninni greindist Valgerður með COVID19 sem setti skiljanlega svolítið strik í reikninginn.

Valgerður segir að það hafi verið mikill tilfinningarússíbani að fá símtalið það sem henni var tjáð að hún væri með COVID. „Ekki það að ég hafi beint verið hrædd við að smitast en það er öll þessi óvissa í kringum þessi veikindi sem gerir þetta pínu erfitt. Það spilaði líka inn í að þegar ég og krakkarnir mínir greindust þá var maðurinn minn búinn að vera í einangrun í tæpa viku og búinn að þurfa að liggja inni í nokkra daga frekar mikið veikur,“ segir Valgerður í samtali við sunnlenska.is.

Ákveðin að kvíða ekki dögum sem koma kannski aldrei
„Það er ekki góð tilfinning að fá þá þær fréttir að maður sé sjálfur smitaður og börnin líka. Hugurinn fer í allar skúffurnar sem geyma verstu hugsanirnar og hendir þeim fram og tilbaka eins og óhreinum þvotti. Ég þurfti að hafa mig alla við til að loka þeim aftur. Sem betur fer leið okkur þokkalega, við vorum ekki með mjög mikil einkenni og ég var mjög ákveðin í því við krakkana að við ætluðum ekki að hafa áhyggjur fyrr en við þyrftum að hafa áhyggjur, ekki kvíða dögum sem koma kannski aldrei. Við fundum líka mjög fjótt að það eina sem hægt er að gera er að taka einn dag í einu,“ segir Valgerður.

Valgerður glöð á göngu í innkeyrslunni. Ljósmynd/Valgerður Jónsdóttir

Hlakkar til að finna bragð aftur
Valgerður segir að hún hafi sloppið frekar vel. „En ég var samt í einangrun í tuttugu og einn dag, vegna einkenna. Ég var fyrst með mikla beinverki, skrýtna húðskynjun og höfuðkvalir í nokkra daga og fékk svo ljótan hósta sem að hékk í mér í langan tíma og þess vegna var ég svona lengi í einangrun. Maður þarf að vera einkennalaus í sjö daga til að fá útskrift.“

„Ég slapp þó alveg við að fá hita og mér leið aldrei beint illa, en ég var hundslöpp og mjög þreytt. Ég missti líka allt bragð og lyktarskyn, það var ekki góður dagur! Ég elska að borða, og elska súkkulaði, mig dreymdi meira að segja súkkulaði eina nóttina. Ég hlakka mikið til að finna bragð aftur,“ segir Valgerður.

Staðráðin í að klára þrátt fyrir COVID
„Þegar ég greindist átti ég eftir tvo daga af áskoruninni minni, alveg ótrúlega svekkjandi að vera búin að halda út í 363 daga og vera svo í einangrun þegar stóri dagurinn kemur. Ég var samt staðráðin í að klára, passaði mig að fara bara rólega og hlustaði á líkamann. Að fá COVID var líka, fyrir mér, stór biti andlega og þess vegna fannst mér mikilvægt að halda áfram. Ég tók rólega Yoga æfingu og teygjur fyrri daginn og svo á stóra deginum sjálfum þá labbaði ég í hringi úti á pallinum mínum, hlæjandi og skríkjandi. Unglingsdóttur minni fannst það frekar hallærislegt, en þetta er bara svo mögnuð upplifun að klára svona stórt verkefni,“ segir Valgerður.

Meiri áskorun að hreyfa sig í einangrun en sóttkví
„Ég var alltaf ákveðin í því að halda áfram að hreyfa mig eftir að áskoruninni lyki formlega og ákveðin í að halda áfram að hvetja flotta fólkið mitt á síðunni 30min100dagar sem er enn á fullu í sínum áskorunum, þó að ég sjálf væri hætt að telja.“

„Á meðan ég var í sóttkví þá mátti ég fara út að labba/hlaupa og mátti fara upp á fjall og hvert sem er þar sem ég væri ekki nálægt fólki, þannig að ég fann lítið fyrir því að vera í sóttkví í rauninni. En í einangrun þá máttu ekki fara út af heimilinu, nema þú eigir afgirtan garð eða annað svæði sem er afgirt og ekki sameiginlegt með neinum. Ég átti aðeins erfiðara með það, en ef síðastliðið ár hefur kennt mér eitthvað þá er það að hugsa í lausnum, ekki einblína á vandamálið,“ segir Valgerður.

Í hamingjukasti eftir göngutúr í innkeyrslunni
„Þannig að þegar ég var búin að fara einn dag í göngutúr á pallinum, annan dag í boltaleik með krökkunum þá prófaði ég að taka göngutúr í innkeyrslunni minni. Það var algerlega frábært og eftir sirka 30 mínútna göngu, hring eftir hring og samtals 1,1 km þá kom ég inn gjörsamlega stútfull af hamingju og gleði, brosti út af eyrum og fannst ég vera búin að sigra heiminn. Þetta breytti öllu fyrir mig, og sannaði fyrir mér enn og aftur hversu mikilvæg hreyfing er minni heilsu.“

„Ég fór alls þrettán daga út að ganga í innkeyrslunni, suma daga var gangan mjög róleg en aðra daga hafði ég orku til að ganga rösklega og taka nokkrar hnébeygjur með. Þegar maður er ekki 100% þá er svo mikilvægt að hlusta á líkamann og algerlega fylgja því sem hann biður um. Þetta voru hápunktarnir á deginum mínum, þó að suma daga hafi verið virkilega erfitt að koma sér af stað en þegar ég var búin þá kom ég alltaf brosandi inn,“ segir Valgerður.

Göngutúrarnir í innkeyrslunni komu skemmtilega út á korti.

Áskorunin hjálpaði að tækla kvíðann
Aðspurð hvort áskorunin hafi hjálpað Valgerði að komast í gegnum COVID segir hún svo vera. „Ég er búin að hugsa þetta mikið og ég er þess fullviss að hún hafi gert það. Áskorunin kenndi mér að trúa á sjálfa mig, hún sannaði fyrir mér að ég get það sem ég ætla mér og ég stóð uppi sem margfalt sterkari einstaklingur fyrir vikið.“

„Ég hef gengið samferða kvíða í mörg ár og lagt mig verulega mikið fram við að takast á við það verkefni. Óvissa er eitt af því sem getur reynst aðeins snúið að eiga við þegar maður er að vinna í slíku verkefni og þar sem allt í kringum COVID er töluverð óvissa þá var ég aðeins búin að velta fyrir mér hvernig mér tækist að takast á við það ef ég myndi greinast jákvæð einhvern tímann.“

„Af öllum þeim verkfærum sem mér hefur tekist að safna mér síðustu ár til að takast á við minn kvíða, þá hefur þessi áskorunun reynst mér best. Það er þetta með að fá trú á sjálfan sig, þá um leið missir kvíðinn völdin eða gerði það í mínu tilfelli. Ég viðurkenni alveg að ég átti erfiða daga núna í þessum veikindum og einn daginn þá hreinlega missti ég trúna og hafði mig ekki einu sinni af stað út, lá bara í sófanum og vorkenndi mér. Það má svo sannarlega eiga þannig daga og í raun eru þeir nauðsynlegir. Strax og ég vaknaði morguninn eftir þá samt ákvað ég að mig langaði ekki í fleiri svona daga, og var komin út fyrir hádegi, í innkeyrsluna, þrammandi fram og tilbaka,“ segir Valgerður.

Mikilvægt að hafa fasta punkta á hverjum degi
Valgerður segir að það sé erfitt að gefa fólki sem hefur greinst með COVID almennt ráð því að fólk hefur misjafnar leiðir til að takast á við óvssu. „Ég get þó sagt að það sem hjálpaði mér mest var að hafa áfram fasta punkta á hverjum degi. Ég fór alltaf inn í daginn á sama hátt, þvoði mér í framan, setti á mig maskara og smá sól í kinnarnar, fékk mér svo morgunmat með lýsi og öllu sem ég er vön. Ég settist niður á hverjum degi og púslaði, stundum mikið og stundum bara lítið.“

„Púsl er vanmetið „slökunartæki”, allavega nær það alltaf að hjálpa mér að detta í núið, þú getur ekkert hugsað um ljóta veiru þegar þú ert að leita að púslinu með beyglaða pinnanum í púslum sem eru öll eins á litinn. Ég reyndi líka að halda svefnrútínunni óbreyttri, þannig að já, fyrir mig virkaði að halda rútínu og ég leyfði mér líka að upplifa allar tilfinningarnar sem komu, en passaði mig líka að týnast ekki í þeim,“ segir Valgerður.

Krefjandi verkefni framundan
Valgerður losnaði úr einangrun 2. nóvember og er strax byrjuð á nýrri áskorun. „Eftir að hafa farið mjög varlega inn í hið daglega amstur, vinna, fara í búð og slíkt og finna hvernig staðan var á líkamanum þá ákvað ég að þetta væri frábært tækifæri til að byrja aftur á áskoruninni og ég setti mér strax hundrað daga markmið.“

„Ég finn mikinn mun á mér, frá því hvernig ég var áður en ég veiktist, úthaldið er lítið og ég mæðist aðeins við lítið tilefni. Það er því aldrei mikilvægara en núna að halda áfram að læra að hlusta á líkamann og fylgja því sem hann er að reyna að segja mér. Ég mun því fara mjög rólega af stað, taka mikið af göngutúrum til að hlaða batteríin. Ég hlakka samt svo mikið til að komast af stað, ég held að þetta verði krefjandi verkefni og það verður lærdómsríkt að takast á við það,“ segir Valgerður að lokum.

Fyrri greinGul viðvörun: Inn með garðhúsgögnin!
Næsta greinEllefu sunnlenskir jólabjórar á markaðnum