Krakkarnir í Félagsmiðstöðinni Klaustrið á Kirkjubæjarklaustri syntu áheitasund í einn sólarhring 29. til 30. apríl síðastliðinn.
Dagana á undan höfðu þau safnað áheitum fyrir ferðasjóð félagsmiðstöðvarinnar og gekk sú söfnun vel. Íbúar Skaftárhrepps tóku vel í að heita á krakkana, sumir settu fram ákveðna upphæð en aðrir miðuðu við kílómetrana sem krakkarnir myndu ná að synda.
Klukkan 14:00 þann 29. apríl stungu fyrstu krakkarnir sér í laugina og hófu sundið. Tveir krakkar syntu saman í lotum sem stóðu í 30 mínútur en Jóhann Gunnar, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar, hafði skipað foreldra sem talningamenn.
Sumir syntu svo hratt að talningarmenn áttu í fullu fangi með að merkja við ferðirnar. Það verður hins vegar að viðurkennast að þegar komið var fram undir morgun var farið að draga af mörgum.
Þrátt fyrir það náðu krakkarnir að synda í heilan sólarhring og kílómetrarnir söfnuðust saman og í lokin höfðu þau lagt að baki 120 km og ljóst að vel hafði safnast í ferðasjóðinn.