Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína í Reynisfjöru í dag. Hluti þeirra hefur farið upp að skriðunni sem féll í síðustu viku og sumir hafa klifið sjálfa skriðuna.
RÚV greinir frá þessu en Reynisfjöru var lokað eftir að stór skriða féll úr Reynisfjalli niður í fjöru snemma á þriðjudagsmorgun í síðustu viku.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir í samtali við RÚV að lögreglan hafi í dag fengið tilkynningu um för fólksins í skriðunni síðdegis og að tveir lögreglumenn hefðu verið sendir á staðinn. Lögreglan hefur reynt að girða svæðið af en þær girðingar mega sín hins vegar lítils fyrir mætti sjávarins og skolar burt daglega.