Lögreglan á Suðurlandi fjarlægði bílnúmer af fjórum bílum í síðustu viku þar sem þeir voru ótryggðir í umferðinni.
Að auki voru skráningarnúmer fjarlægð af einum fólksbíl til viðbótar þegar í ljós kom að sumardekk sem voru undir bílnum voru öll mjög slitin og eitt þeirra alveg inn í striga. Þá hafði ökumaður hennar ekki hirt um að skipta um ljósaperu í ljósi sem lögreglan hafði áminnt hann um nokkru áður.
Einnig stöðvaði lögreglan ökumann bifreiðar sem dró kerru með annarri bifreið á. Sú bifreið var óbundin á kerrunni og taldi ökumaðurinn nægjanlegt að hún væri í handbremsu til að tryggja að hún færi ekki út af kerrunni. Það telst hinsvegar ekki nægjanlegur frágangur og fékk viðkomandi sekt fyrir brot sitt sem og að hafa ekki réttindi til að aka bifreið með svo þunga kerru í eftirdragi.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi. Þar má einnig sjá að lögreglan stöðvaði einn ökumann sem er grunaður um að aka ölvaður og annan undir áhrifum fíkniefna. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir að flytja farþega án þess að vera með gilt rekstrarleyfi til þess.