Kona, sem var ökumaður fólksbifreiðar, var flutt á slysadeild í Reykjavík eftir bílveltu á Eyrarbakkavegi um kl. 3:30 í nótt. Beita þurfti klippum til að ná konunni út úr bílnum.
Ekki er vitað hvers vegna konan missti stjórn á bílnum en ekki var hálka á veginum. Bíllinn fór útaf skammt frá afleggjaranum að Tjarnarbyggð og valt eina eða tvær veltur.
Lögregla og sjúkraflutningamenn voru kallaðir á vettvang og eftir að hafa kannað meiðsli konunnar var ákveðið að kalla eftir klippubíl frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi. Slökkviliðsmenn beittu klippum til að ná konunni út en hún var talsvert lemstruð en ekki alvarlega slösuð. Hún var ekki í bílbelti.
Sjúkrabíll flutti hana síðan á slysadeild í Reykjavík.