Laugarsvæði Sundhallar Selfoss hefur verið lokað í rúma viku vegna alvarlegrar bilunar í klórframleiðslukerfi sundhallarinnar.
Sérfræðingar hafa klórað sér í kollinum vegna bilunarinnar en nú horfir til bjartari vegar og er von á varahlutum í klórframleiðslukerfið á morgun mánudag. Frekari upplýsingar um opnun laugarinnar ættu því að berast í byrjun vikunnar.
Opið er í World Class og sturtuaðstaða Sundhallarinnar er sömuleiðis opin. Vegna lokunarinnar hefur opnunartími sundlaugarinnar á Stokkseyri verið rýmkaður en þar er opið á meðan ekki er verið að kenna skólasund, frá 6:30 til 8:00 og aftur frá 14:15 til 20:00.