Landssamband hestamannafélaga og VÍS hafa tekið höndum saman um að auka sýnileika knapa og fáka í svartasta skammdeginu.
Verkefnið gengur út á að bjóða sérvalin endurskinsmerki til sölu í tugum verslana um land allt. Til að fyllsta öryggis sé gætt er endurskinið bæði ætlað knapa og hesti þar sem þeir geta orðið viðskila.
Á síðasta áratug hefur eitt banaslys orðið þar sem ekið var á endurskinslausan knapa og hest. Jafnframt eru þess fjölmörg dæmi að næstum hafi verið ekið á hest og knapa bæði innan og utan hesthúsasvæða. Talsverð hætt er á að hross fælist þegar bíll kemur óvænt að þeim og viðbrögð þeirra þá ófyrirsjáanleg. Þétting byggðar krefst enn frekari árvekni hestamanna gagnvart sýnileika sínum. Hesthús sem áður voru langt frá byggð eru komin í eða við byggðakjarna og öll umferð í nágrenni þeirra þyngst sem því nemur.
Hestamenn, vinir þeirra og vandamenn geta nú auðveldlega fundið nauðsynlegar endurskinsvörur við hæfi sem jafnvel má lauma með í jólapakkann. Hestamannafélög eru hvött til að benda félagsmönnum sínum á brýna þörf endurskins því þá sést viðkomandi allt að fimm sinnum fyrr en ella. Sá tími sem þannig gefst getur skipt sköpum. Á Facebook síðu verkefnisins er hægt að nálgast upplýsingar um endurskinið og hvaða verslanir taka þátt í því.