Kona slasaðist minniháttar þegar hestur sem hún reið fór utan í bifreið sem ekið var fram með hestinum í hesthúsahverfinu á Selfossi í síðustu viku.
Talið er að hesturinn hafi fælst þegar bifreiðinni var ekið framúr honum og lenti hann utan í bílnum með þeim afleiðingum að fótur knapans varð á milli.
Hesturinn slasaðist á fæti við óhappið er hann rakst utan í hliðarspegil. Konan hlaut mar á fæti og leitaði til læknis og dýralæknir saumaði skurð sem kom á fót hestins.
Lítilsháttar tjón varð á bifreiðinni.
Sl. fimmtudag var ekið á hægra afturhorn grárrar Mercedes Bens bifreiðar sem stóð mannlaus á bifreiðastæði framan við verslun BYKO á Selfossi.
Engar vísbendingar eru um hver hafi ekið á bifreiðina og biður lögregla þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hringja í síma lögreglunnar 480 1010.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.