Knarrarósviti verður opinn almenningi í sumar en þar er hægt að upplifa stórkostlegt útsýni úr 30 metra hæð yfir sjávarmáli.
Knarrarósviti stendur við Knarrarós í landi Baugsstaða, austan við Stokkseyri. Vitinn var byggður á árunum 1938-39 og eru því rúm 80 ár síðan að hann var tekinn í notkun.
Vitinn er opinn alla virka daga kl. 13 til 17 og á laugardögum og sunnudögum í júlí og ágúst kl. 13 til 18 og er helgaropnunin í samstarfi við Byggðasafn Árnesinga.
Aðgangur að vitanum verður ókeypis í sumar. Í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Árborg er bent á að þeir einstaklingar sem fara upp í vitann eða út á svalir efst í vitanum eru alfarið á eigin ábyrgð. Einnig er fólki bent á að leggja ekki bílum fyrir aðkeyrslu að vitanum af öryggisástæðum.