Þeim varð heldur kalt, keppendunum í koddaslagnum á Stokkseyrarbryggju í dag, en allir lentu þeir í sjónum.
Björgunarfélag Árborgar sá um dagskrá sjómannadagsins á Stokkseyri þar sem fjöldi fólks mætti á íþróttavöllinn og reyndi sig í kassaklifri, stígvélaþeytu, reiptogi og hjólböruratleik.
Að því loknu var koddaslagur við höfnina auk þess sem margir fóru í skemmtisiglingu með gúmmíbátum björgunarfélagsins.
Boðið var upp á sjómannadagskaffi í íþróttahúsinu og í morgun var hátíðarguðsþjónusta í Stokkseyrarkirkju þar sem blómsveigur var lagður að minnisvarða um drukknaða sjómenn.