Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að tveir karlmenn sæti gæsluvarðhaldi til klukkan 16 á morgun.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í gær yfir félaga mannanna um að hann skyldi einnig sæta gæsluvarðhaldi þar til á morgun. Fallist er á að fram sé kominn rökstuddur grunur að mennirnir kunni að hafa gerst sekir um fíkniefnabrot sem varðað geti fangelsisrefsingu.
Í greinargerð lögreglustjórans á Selfossi kemur fram að mennirnir hafi verið handteknir klukkan 00.40 aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl. í orlofshúsi grunaðir um fíkniefnamisferli. Við húsleit í orlofshúsinu hafi fundist 374,34 grömm af kókaíni, 369,06 grömm af hvítu duftkenndu efni af óþekktum toga, 219 stykki af hylkjum með óþekktu innihaldi, brúsar sem innihéldu aceton (naglalakkseyði), olíuhreinsi og startvökva.
Fyrir liggi að mennirnir hafi haft afnot af bifreið sem staðið hafi á bifreiðaplani skammt frá orlofshúsinu en bifreiðin sé í eigu fjórða mannsins sem einnig hafi verið handtekinn aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl. Í fyrrnefndri bifreið hafi fundist leigusamningur um áðurnefnt orlofshús þar sem leigutaki er tilgreindur. Sá maður sé ófundinn þrátt fyrir víðtæka leit lögreglu en fram sé komið í málinu að nefndur maður hafi átt samskipti við staðarhaldara orlofshússins mánudaginn 24. október sl., þ.e. við upphaf leigutímans.
Samkvæmt málatilbúnaði lögreglustjóra beinist rannsókn lögreglu að ætlaðri hlutdeild samverkamanna kærða að fíkniefnamisferli. Rannsaka þurfi styrkleika efna sem fundust í húsleit í orlofshúsinu, tengsl kærðu innbyrðis, taka þurfi frekari skýrslur af þeim og finna þurfi mann þann sem leigði orlofshúsið en ljóst sé að hann tengist ótvírætt málinu.
Rannsóknargögn málsins, þ. á m. myndir af vettvangi, sýna ætlað kókaín víðsvegar um orlofshúsið, m.a. á matardiskum og skálum á borði í eldhúsi, í skaftpotti á gólfi í svefnherbergi og í glerkrukkum á gólfi í svefnherbergi. Auk þess hafi fundist óþekkt efni í plastdunk, merktum Creatine, í tösku í svefnherbergi og óþekkt efni á skál í eldhúsi. Þá hafi fundist gluggaskafa og skeiðar með hvítum efnisleifum á diski á stofuborði. Gat því engum sem í orlofshúsinu var dulist að um fíkniefni var að ræða.
Lögregla hefur til rannsóknar nokkuð umfangsmikið brot á fíkniefnalöggjöfinni sem varðað getur fangelsisrefsingu ef sök sannast. Rannsókn málsins er á frumstigi og beinist meðal annars að þætti hvers og eins þeirra fjögurra manna sem handteknir voru í tengslum við rannsókn að málinu og þá leitar lögregla fimmta mannsins sem rannsóknargögn málsins benda til að tengist málinu.
Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér, er fallist á það með lögreglustjóra að mennirnir séu undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað fangelsisrefsingu og að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi ella megi ætla að þeir muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni.