Kol úr sauðataði fyrir stóriðnað, landgræðslu og landbúnað

Ársæll Markússon. Ljósmynd/Aðsend

Kindakol, kol þar sem meginuppistaðan er sauðatað, er hugarfóstur frumkvöðulsins Ársæls Markússonar í Þykkvabæ.

Kindakol er meðal fimm verkefna í Startup Orkídeu sem voru kynnt í mars síðastliðnum. Notkunarmöguleikar kolanna eru margvíslegir og er undirbúningur á þessum vistvænu kolum í fullum gangi. Auk þessi að innihalda sauðatað innihalda kolin einnig matarúrgang og hamp.

„Hugmyndin kom til mín 2019 þegar ég var að lesa matreiðslubók sem einblíndi á yakitori matreiðslu. Yakitori er japönsk tegund af svínakjöti eða kjúklingi á grillspjótum. Undirbúningur þess felur í sér að snúa kjötinu yfir kolum og meðan er kjötið pennslað með sérstökum sósum,“ segir Ársæll í samtali við sunnlenska.is.

„Það sem greip augað mitt voru kolin sem eru notuð og metnaðurinn sem fer í það að velja réttu kolin. Hefðbundna leiðin kallar á japanska eik frá Kishu. Kokkar um allan heim álíta bestu kolin koma frá Kishu og sverja að kolin bragðbæti kjöt og sjávarfang sem önnur kol geta ekki. Og þetta fékk mig til að hugsa um kindatað og notkun Íslendinga á kindataði til að reykja matvælin okkar. Afhverju ekki að útbúa kol úr kindataði?“

„Þetta leiddi mig til þess að sækja um í Startup Orkídea, sem er vettvangur fyrir þróun verkefna sem vinna að sjálfbærum lausnum á sviði matvælaframleiðslu og orkutengdri nýsköpun. Ég sótti um og var valinn ásamt fjórum öðrum verkefnum. Þessi hraðall á vegum Icelandic Startups og Orkídea gaf mér tækifæri til að þróa hugmyndina, tala um hana og fá endurgjöf frá einstaklingum með mikla reynslu í nýsköpun,“ segir Ársæll.

Lítil hugmynd sem óx
Ársæll segir að upphaflega áttu Kindakol að vera sjálfbær og umhverfisvæn kol fyrir veitingastaði til að grilla matvæli yfir. „En eins og gerist oft þá vinda hugmyndir upp á sig og verða stærri. Eftir að hafa talað við leiðbeinendur í gegnum Startup Orkídea þá sögðu þau mér að hugsa stærra, ekki bara veitingahús í Reykjavík. Ég tók það sem áskorun og setti því stefnuna á orkusækinn iðnað, landbúnað og landgræðslu.“

„Kindakol ehf ætlar að hrinda í framkvæmd lífkolastarfsemi sem umbreytir lífrænum úrgangi frá búfjárdýrum í kol með notkun HTC ferlis. Þetta verður gert með byggingu fyrstu verksmiðju sinnar tegundar á Íslandi. HTC stendur fyrir Hydrothermal carbonization eða vatnshitakolun á íslensku. Vatnshitakolun var þróuð af þýska efnafræðingum Friedrich Bergius og hlaut hann Nóbelsverðlaun fyrir vikið. Aðferðin flýtir náttúrulegri myndun kola verulega.“

„Kindakol má brenna eins og hefðbundinn viðarkol, og gæti þess vegna komið til móts við stóran innflutning á kolum sem notuð eru í álverum. Svo má nota Kindakolin til að að bæta jarðveginn en íblöndun við mold eykur frjósemi, eykur árangur í uppgræðslu lands og jafnvel sem bætiefni við moltugerð og hreinsun mengaðs jarðvegs,“ segir Ársæll.

Kindakol

Heppinn með fólkið í kringum sig
Aðspurður hvernig viðbrögðin frá fólkinu hans hafi verið þegar hann fékk hugmyndina að KindaKolum segir Ársæll að hann hafi haldið henni leyndri til að byrja með.

„Ég er ekki gjarn á að segja frá hugmyndum mínum, þær veltast bara um í hausnum á mér þangað til ég sé tækifæri til að láta reyna á þær. Eins og með Kindakol, hugmyndin kom til mín 2019 en það var ekki fyrr en 2021 þegar ég las um Startup Orkídea sem hugsanlegan vettvang til að láta reyna á þessa hugmynd. Og ég sagði ekki frá því að ég hefði tekið þátt fyrr en ég vissi að ég væri í lokaúrtaki umsækjenda. Viðbrögðin voru bara góð, ég hef alltaf verið umkringdur fólki sem hefur veitt mér stuðning og jákvætt viðmót. Ég heppinn með það og þakklátur.“

Ársæll segir að að mörgu þurfi að huga þegar kemur að framleiðslu sem þessari. „Hugmyndin er á frumstigi, nemendur í Háskólanum í Reykjavík gerðu fyrir mig fjörutíu blaðsíðna fýsileikakönnun um byggingu verksmiðju af þessum toga á Íslandi. Skýrslan tók á og svaraði ýmsum áhyggjum og áskorunum sem fylgir svona verkefni og hafði heilt yfir afskaplega jákvæðar niðurstöður. Í dag er Kindakol ehf. að skoða styrki til að rannsaka verkefnið frekar. Aðstandendur Orkídea á Selfossi hafa veitt leiðsögn og ráðgjöf varðandi þann part, en það getur verið hálfgerður frumskógur að rata í gegnum svona styrktarferla og umsóknir, þá sérstaklega evrópska styrktarkerfið.“

Kjötsnakk og smælki í vistvænum umbúðum
Vert er að geta að Ársæll er eigandi fyrirtækisins 1000 ára sveitaþorp ehf. en undir því merki hefur hann hannað og þróað ýmsar íslenskar afurðir.

„Ég fékk styrk frá SASS árið 2017 til að þróa og koma í framkvæmd íslensku kjötsnakki sem byggir á aldagamalli íslenskri matarhefð úr Þykkvabænum sem kallast Skræður. Ég vildi bæta nýtingu og auka verðmætasköpun með meiri fullvinnslu á hrossakjöti. Og ég þróaði nýtt framleiðsluferli fyrir íslenskt kjötsnakk úr hrossakjöti sem byggir á gamall matarhefð. Það hafa tvær bragðtegundir af því verið þróaðar og settar á markað, eldpipar er ein bragðtegundin og hin hvítlaukur og svartur pipar. Í dag má finna Skræður í verslunum Hagkaups og í Krónunni Selfossi. Svo má alltaf senda mér skilaboð á Facebook eða Instagram og leggja inn pöntun.“

Ársæll segir að langtímamarkmið hans sé að gera Skræðurnar að matarminjagrip fyrir ferðamenn sem heimsækja Ísland til að taka með sér heim.

„Á þessum tíma varð ég líka var við samræðurnar sem áttu sér stað í samfélaginu varðandi plastnotkun og plastmengun, ég hugsaði því með mér hvort það væri ekki eitthvað í mínu nærumhverfi sem ég gæti breytt. Augljósa svarið var kartöflur og pökkun á þeim, en kartöflum hefur alltaf verið pakkað í plastpoka. Þessu vildi ég breyta og hannaði því umhverfisvænar umbúðir úr pappír fyrir kartöflur. Það hefur stækkað og umbúðirnar eru til í ýmsum stærðum,“ segir Ársæll.

Skræður

Alltaf haft vítt áhugasvið
Aðspurður hvernig barn hann hafi verið – hvort hann hafi alltaf verið svona hugmyndaríkur – segir Ársæll að honum hafi alltaf þótt gaman af því að skapa. „Svo er ég alltaf að lesa eða afla mér upplýsinga. En áhugasvið mitt er mjög vítt, upplýsinganeysla er mitt áhugamál og út frá upplýsingum og reynslu spretta hugmyndir. Ég er menntaður sem matreiðslumaður og ég hefði aldrei getað þróað Skræðurnar hefði ég ekki reynslu og þekkingu úr veitingahúsageiranum. Svo ólst ég upp í Þykkvabænum og foreldrar mínir eru kartöflubændur, aðgengi mitt að kartöflum gaf mér tækifæri til að koma á markað kartöflum pökkuðum í umhverfisvænar umbúðir.“

„Sem krakki snerist tíminn um að lesa bækur og teiknimyndablöð, teikna, spila tölvuleiki, smíða kofa og veiða fisk. Það var aldrei eitt sérstakt áhugamál hjá mér sem krakki, þau voru ótal mörg og misjafnt hvað maður tók með sér í fullorðnisárin. En uppátækin voru ekkert vitlausari en gengur og gerist hjá krökkum, ég tók upp á því mjög snemma að safna skeljum og plata yngri systkini mín til að ganga í hús og selja skeljar fyrir krónur. Svo þegar kötturinn á bænum eignaðist kettlinga þá rukkaði ég krakkana í þorpinu um einhverja tíkalla ef þau vildu sjá þá og klappa þeim. Ég er ekkert sérstaklega stoltur af því að hafa gert þetta, en ég vildi vera sjálfstæður og vinna fyrir mér,“ segir Ársæll.

Kartöflur úr Þykkvabænum.

Á foreldrum sínum mikið að þakka
Ársæll segist þakka nýsköpunarsjóðum og uppbyggingarsjóðum fyrir að fá tækifæri til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. „Það er mikil lukka í því að búa við þannig aðstæður að hver sem er getur komið og lagt sína hugmynd fyrir dómnefnd og hugsanlega fengið styrk til að koma henni í framkvæmd. SASS, Orkídea og Icelandic Startups eiga þakkir mínar fyrir að gefa mér leiðsögn og athugasemdir. Svo eru það auðvitað foreldrar mínir fyrir endalausa þolinmæði og stuðning, þau eiga mest í þessu með mér.“

Markmið Ársæls eru mörg. „Skammtímamarkmið mitt í dag er að klára að byggja húsið mitt, en ég er með lítinn skika fyrir utan Þykkvabæinn þar sem ég er að reisa lítið hús. Langtímamarkmið mitt er að halda áfram að stækka 1000 ára sveitaþorp ehf. og Kindakol ehf. Ég vil sjá þessi fyrirtæki í náinni framtíð hafa bolmagn til að ráða margt gott fólk og auka verðmætasköpun á Suðurlandi.“

„Ég býð öllum að fara á Instagram og Facebook og fylgja @1000arasveitathorp og @kindakol,“ segir Ársæll að lokum.

Fyrri greinTíu sentimetra jafnfallinn snjór í Þakgili
Næsta greinDrög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Geysi í kynningarferli