Mikið annríki var hjá lögreglunni á Selfossi aðfaranótt laugardags og þurfti að kalla út aukamenn á vaktina. Skotárás á Eyrarbakka bar upp á svipuðum tíma og leitað var að mönnum í uppsveitunum og á Hellisheiði.
Rétt fyrir klukkan fjögur aðfaranótt laugardags var óskað eftir aðstoð vegna manns sem rokið hafði út úr húsi í Reykholti í Biskupstungum fáklæddur og mjög ölvaður. Björgunarsveitir voru kallaðar út til leitar og lögreglumenn fóru á staðinn. Á leið að Reykholti höfðu lögreglumenn afskipti af ölvuðum ökumanni. Í þessum verkefnum voru bundnir fjórir lögreglumenn þegar boð komu frá Eyrarbakka um menn sem þar væru að valda íbúum í húsi ónæði.
Stuttu síðar hringdi íbúi hússins og lét vita að meira væri farið að ganga á við húsið og á meðan samtalinu stóð var skotið á húsið. Við þau tíðindi var brugðist við með því að draga lögreglumenn til baka úr leitarverkefninu, kalla til aðstoðar sérsveitar.
Meðan á öllu þessu gekk var óskað eftir aðstoð við að leita að manni sem hafði verið að skemmta sér á Selfossi en sinnaðist við ættingja sína og fór með leigubíl í Hveragerði þar sem hann yfirgaf leigubílinn og ætlaði að ganga yfir Hellisheiði til Reykjavíkur í slyddu og snjókomu.
Ekki var mögulegt að sinna því verkefni strax þar sem allir voru bundnir í Eyrarbakkamálinu. Kalla þurfti út aukamenn til að sinna því verkefni. Maðurinn fannst þá kominn ofarlega í Kamba orðinn kaldur og hrakinn.