Í vikunni opnuðu þær Helga Halldórsdóttir og Svanlaug Ágústsdóttir hárgreiðslustofu, Kompuna klippistofu, í Þorlákshöfn. Helga hefur hingað til verið með hárgreiðslustofa í heimahúsi.
Á heimasíðu sveitarfélagsins segir að sárlega hafi vantað fleiri aðila til að sjá um hár Ölfusinga eftir að Hárnýjung hætti starfsemi. Þorlákshafnarbúar hafa þó notið þjónustu Kjartans Björnssonar, sem mætir reglulega og tekur á móti viðskiptavinum í Unubakkanum, en hausarnir eru margir og því ánægjuefni að þær stöllur hafi opnað stofuna.
Klippistofan er sérlega smekklega innréttuð og bætir í mannlífið í miðbæjarsvæðið.