Sjúkraflutningamenn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands heimsóttu hina tólf ára gömlu Thelmu Dís í Hveragerði í morgun og færðu henni ágóða af uppboði sem haldið var á dögunum.
Árlega styrkja sjúkraflutningamennirnir fjölskyldur langveikra barna á aðfangadag með ágóða af dagatalssölu en í ár var ákveðið að taka forskot á verkefnið og afhenda Thelmu Dís ágóða af símauppboði sem Árvirkinn og Vodafone stóðu fyrir fyrr í desember og ánöfnuðu sjúkraflutningamönnunum.
Þar söfnuðust 40 þúsund krónur sem sjúkraflutningamennirnir færðu Thelmu Dís í dag ásamt ostakörfu og glaðningi frá Íslandsbanka.
Thelma Dís greindist með illkynja krabbamein í hægri fæti rétt eftir páska á þessu ári og í júní var fóturinn tekinn af fyrir neðan hné.
Thelma Dís hefur verið í lyfjameðferð frá því í vor og segir Vilborg Eva Björnsdóttir, móðir hennar, að meðferðin gangi vel og fyrirhugað er að henni ljúki um mánaðarmótin janúar/febrúar á næsta ári. Thelma Dís styðst við hækjur en hún þarf að fara í litla aðgerð til að lagfæra fótinn áður en hún getur farið að nota gerfifót sem hún er búin að eignast.
“Mig langar að koma á framfæri ofboðslega miklu þakklæti til allra sem hafa stutt okkur á árinu. Við finnum fyrir miklum samhug í okkar garð og það styrkir okkur mikið,” sagði Vilborg Eva í samtali við sunnlenska.is.