Komu FSu á kortið

Sigurður Eyþórsson, Sveinn Helgason og Lýður Pálsson, þegar ljóst var að FSu hafði sigrað í fyrstu Spurningakeppni framhaldsskólanna. Mynd/RÚV

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er komið í úrslit Gettu betur og mætir Menntaskólanum í Reykjavík í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu næsta föstudagskvöld. Þetta er í fyrsta sinn í 37 ár sem FSu kemst alla leið í úrslit en árið 1986 sigraði FSu keppnina – í fyrsta skipti sem hún var haldin.

Fyrirliði liðsins árið 1986 var Selfyssingurinn Sveinn Helgason og hafði hann sér til fulltyngis tvo sterka félaga úr Sandvíkurhreppnum, Sigurð Eyþórsson frá Kaldaðarnesi og Lýð Pálsson frá Litlu-Sandvík. Dramatíkin var mikil en FSu tryggði sér sigurinn gegn Flensborg með því að hala inn sex stig í lokaspurningunni og sigra 43-41.

Sveinn Helgason. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem stendur uppúr hjá mér þegar ég rifja þetta upp er hversu skemmtilegt þetta var. Auðvitað var gaman að vinna en persónulega var mjög gefandi að taka þátt í því ásamt félögum mínum að koma FSu á kortið, ef svo má segja. Skólinn var að slíta barnsskónum, hann var á mörgum stöðum á Selfossi, því ekki var búið að byggja núverandi skólahús,“ segir Sveinn sem býr í dag í Riga og Brussel og starfar á vegum utanríkisráðuneytisins í Lettlandi.

Fóru í Klúbbinn eftir sigurinn
„Við kepptum í sjónvarpssal í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg og vorum að sjálfsögðu með langbesta klappliðið. Þetta var á hápunkti “eighties” og tískan var eftir því, skærir litir og ég t.d. í bleikri skyrtu í jakka með herðapúðum. Úrslitakvöldið var ógleymanlegt – sigur, að samgleðjast með vinum og svo var partý á eftir! Við fórum meðal annars í Klúbbinn sáluga, fengum til þess sérstaka undanþágu vegna ungs aldurs…“ bætir Sveinn við brosandi.

Þetta var í eina skiptið sem Sveinn tók þátt í Spurningakeppni framhaldsskólanna, enda útskrifaðist hann um jólin 1986. Hann hefur fylgst með keppninni síðan og auðvitað hefur lið FSu í ár fangað athygli hans.

„Já, ég hef aðeins fylgst með keppninni en eingöngu í sjónvarpi. Mér finnst það frábært að F.Su. sé komið í úrslit og liðið er vel að þessu komið. Þau Ásrún Aldís, Elín og Heimir Árni leggja sig fram, eru með keppnisskapið í lagi og mynda góða liðsheild,“ segir Sveinn og ráðleggur krökkunum að njóta augnabliksins á föstudaginn.

„FSu á alla möguleika á að vinna og liðið þarf að hafa trú á því. Ég er viss um að keppendur undirbúa sig af kostgæfni en fyrst og fremst eiga þeir að njóta augnabliksins og bara gera sitt besta. Ég ætla að horfa og verð pottþétt bullandi stressaður og hugurinn mun eflaust leita 37 ár aftur í tímann. Áfram FSu!“ sagði Sveinn að lokum.

Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri, afhendir liði FSu sigurlaunin í Gettu betur árið 1986. Mynd/RÚV

TENGDAR FRÉTTIR:
Herdís Sigurgrímsdóttir: „Það var á við góðan Suðurlandsskjálfta“
Brúsi Ólason: „Röngu svörin ásækja mig“
Eyjólfur Þorkelsson: Sé ekki eftir sekúndubroti sem ég varði í FSu
Elín, Ásrún og Heimir: Engin pressa fyrir úrslitakvöldið

Fyrri greinFengu fjandsamlegar móttökur á sunnlenskum veitingastað
Næsta greinAlelda bíll í Kömbunum