Lögreglan á Suðurlandi vinnur áfram að rannsókn brunans á Kirkjuvegi 18 á Selfossi síðastliðinn miðvikudag. Að sögn lögreglu er rannsóknin á viðkvæmu stigi.
Tvennt var úrskurðað í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknarinnar, karlmaður fæddur 1965 og kona fædd 1973, og hefur konan kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar.
Nú er unnið úr gögnum sem aflað hefur verið með samtölum við möguleg vitni, undirbúnar skýrslutökur af sakborningum og unnið úr rannsóknargögnum á vettvangi. Þessi vinna fer fram hjá lögreglu, tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæisins, Mannvirkjastofnun og fleiri aðilium eftir því sem við á.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að eðlilega hafi verið mikill ágangur fjölmiðla um að fá upplýsingar um rannsókn málsins frá því það kom upp. Rannsóknin er hinsvegar á viðkvæmu stigi og því verður ekki unnt að gefa frekari upplýsingar um hana að svo stöddu.