Í dag verður Konubókastofan á Eyrarbakka opnuð formlega með móttöku í Rauða húsinu. Að henni lokinni verður gengið að Túngötu 40 þar sem konubókastofan er til húsa.
„Konubókastofan er safn með verkum sem íslenskar konur hafa skrifað á íslensku,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir, Anna í Túni, sem er forsvarsmaður Konubókastofunnar. „Markmiðið er að halda til haga öllum þeim bókum sem íslenskrar konur hafa skrifað í gegnum tíðina.“
„Undanfarin ár hef ég verið að safna bókum eftir íslenskar konur með það að markmiði að opna rithöfundasafn þeim til heiðurs. Í lok apríl 2012 kom viðtal við mig í Landanum á RÚV og eftir það fóru bækur að berast til mín frá fólki um allt land. Í lok maí 2012 stofnaði ég síðan facebooksíðu í nafni Konubókastofunar og hef ég fengið mikinn meðbyr þar eins og annarsstaðar. Bæði hafa höfundar haft samband við mig og vilja gefa bækur og eins bókaforlög, auk fjölda lesenda,“ segir Anna og bætir við að markmið með safninu sé að halda til haga þeim verkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina.
„Um leið og verkin fá utan um sig þetta safn er sjónarhorninu beint að þeim og mikilvægi þeirra í íslenskri bókmenntasögu. Menningararfleið kvenskálda verður miðlað með ýmsum leiðum, bæði því sem snýr að sjálfu skáldinu og/eða verkum þeirra,“ segir Anna.
Sveitarfélagið Árborg veitti safninu aðgang að herbergi í húsnæði sveitarfélagsins en framtíðarsýn Önnu er sú að fá stærra húsnæði sem myndi henta safninu og starfsemi þess. „Helst ætti það að vera íbúðarhúsnæði þar sem heimsókn í safnið verður líkt og heimsókn á heimili,“ segir Anna.
Í móttökunni í Rauða húsinu munu Gerður Kristý og Auður Jónsdóttir lesa úr verkum sínum, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur flytur ávarp og Elín Finnbogadóttir fjalla um tengsl sín við verk Guðrúnar frá Lundi. Sérstakur heiðursgestur verður Helga Kress prófessor og mun hún ávarpa viðstadda, en Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnar safnið formlega.