Kókómjólk Mjólkursamsölunnar, sem framleidd er á Selfossi, var í gær valin besta ferska mjólkurvaran á Norðurlöndum á fagsýningu norrænna mjólkursamlaga sem haldin er í Danmörku.
Jóakim Danaprins veitti verðlaunin en þetta er í fyrsta skiptið sem verðlaunin falla öðrum en Dönum í skaut. Mjólkurbú hvaðanæva af Norðurlöndum taka þátt í sýningunni.
Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri MS á Selfossi, veitti viðurkenningunni móttöku úr hendi prinsins.
Í tilkynningu frá MS segir að Íslendingar drekki árlega yfir tíu milljón fernur af kókómjólk og verið er að meta möguleika á útflutningi. Auk verðlauna fyrir kókómjólk fékk Mjólkursamsalan sérstaka viðurkenningu fyrir SMS skyr, sem ætlað er börnum og ýmis verðlaun í einstökum undirflokkum.
Vörur MS unnu til fimm gullverðlauna, þrettán silfurverðlauna og fimmtán bronsverðlauna á sýningunni sem er haldin annað hvert ár. Þar keppa um 1.600 mjólkurvörur um verðlaun.