Konur fá ekki að fara í sund í Sundhöll Selfoss næstkomandi þriðjudag, af öryggisástæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Árborg.
Þriðjudaginn 24. október verður baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði ekki verður hægt að taka á móti konum í Sundhöllinni þar sem engar konur eru á vakt.
Sundhöll Selfoss opnar klukkan 6:30 á þriðjudaginn eins og venjulega en með verulegum takmörkunum. Karlmenn geta komið í sund og stúlkur, sex ára og yngri, geta komið í fylgd með karlmanni 15 ára og eldri.
Kvennaklefar verða lokaðir, sem og útiklefar og mögulega verður skertur opnunartími seinni part dags. Þá verður Sundlaug Stokkseyrar lokuð.