Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi hefur verið lagður niður frá og með komandi haustönn.
„Ástæðan var að dregið hefur úr áhuga á þátttöku í kórnum og hefur hann ekki sungið við brautskráningu upp á síðkastið. Ekki var talið réttlætanlegt að halda úti þessu kostnaðarsama starfi þegar áhugi var lítill,“ segir Sigursveinn Már Sigurðsson, skólameistari FSu, í samtali við sunnlenska.is.
Kórinn hóf starfsemi sína 21. febrúar 1983. Að sögn Sigursveins voru um fimmtíu í kórnum þegar mest var. Aðeins nítján voru skráðir í kórinn í val fyrir haustönn 2018.
Sigursveinn segir það hafa verið sameiginleg ákvörðun stjórnenda að leggja kórinn niður. „Virkni var orðin lítil og kórstjóri sá ekki fyrir sér að fjölga myndi í kórnum.“
Aðspurður segir Sigursveinn viðbrögðin gagnvart þeim ekki hafa verið mikil og hafa fáir nemendur mótmælt þessari ákvörðun.