Kosið í nefndir á fyrsta bæjarstjórnarfundi í Árborg

Helgi Sigurður Haraldsson var kosinn forseti bæjarstjórnar Árborgar til eins árs á fyrsta fundi bæjarstjórnar í gær.

Eggert Valur Guðmundsson verður formaður bæjarráðs, en auk hans sitja í bæjarráði Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista og Gunnar Egilsson D-lista.

Kosið var í nefndir og ráð á vegum sveitarfélagsins á fundinum í gær.

Samfylkingin fer með formennsku í félagsmálanefnd og fræðslunefnd. Eggert Valur Guðmundsson er formaður félagsmálanefndar og Arna Ír Gunnarsdóttir formaður fræðslunefndar.

Guðbjörg Jónsdóttir er formaður íþrótta- og menningarnefndar fyrir hönd Framsóknar og óháðra. Kjartan Björnsson, fyrrverandi formaður nefndarinnar, lagði það til á fundinum að hann yrði áfram formaður hennar en sú tillaga var felld af meirihlutanum. Kjartan er áfram nefndarmaður fyrir D-listann ásamt Karolina Zoch.

Áfram Árborg fer með formennsku í skipulags- og byggingarnefnd og einnig í kjaranefnd en Sigurjón Vídalín Guðmundsson er formaður í báðum nefndum.

Þá er Miðflokkurinn með formennsku í framkvæmda- og veitustjórn en Tómas Ellert Tómasson er formaður stjórnar.

Á fundinum var einnig samþykkt að auglýsa eftir framkvæmdastjóra til starfa fyrir sveitarfélagið.

Fyrri greinNiðurstaða íbúakosningar verður bindandi
Næsta greinBaráttan skilaði stigi gegn meisturunum