Á síðasta fundi bæjarstjórnar Árborgar var kosið í ný hverfisráð fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri, Sandvíkurhrepp og Selfoss.
Hverfisráð hafa verið við lýði í Sveitarfélaginu Árborg í nokkur ár og eru fulltrúar kosnir til setu í þeim til eins árs í senn. Ráðin eiga að stuðla að hvers konar samstarfi innan hvers svæðis, móta stefnu og gera tillögur til bæjarráðs Árborgar. Þannig eru hverfisráðin ráðgefandi fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Í hverfisráð Eyrarbakka voru kosin Siggeir Ingólfsson, formaður, Guðbjört Einarsdóttir, Rúnar Eiríksson og Gísli Gíslason.
Í hverfisráð Stokkseyrar voru kosnar Guðný Ósk Vilmundardóttir, formaður og Svala Norðdal.
Í hverfisráð Sandvíkurhrepps voru kosin Margrét Katrín Erlingsdóttir, formaður, Anna Valgerður Sigurðardóttir, Páll Sigurðsson og Aldís Pálsdóttir.
Í hverfisráð Selfoss voru kosin Sveinn Ægir Birgisson, formaður, Valur Stefánsson, María Marko, Lilja Kristjánsdóttir og Kristján Eldjárn Þorgeirsson. Varamaður Böðvar Jens Ragnarsson.
Til þess að efla hverfisráðin hefur bæjarráð Árborgar samþykkt að tveir bæjarfulltrúar verði tengiliðir við hvert hverfisráð, og mun bæjarráð skipa þá í framhaldinu.