Kosið verður milli sr. Sigrúnar Óskarsdóttur og sr. Jóns Dalbú Hróbjartssonar í síðari umferð í vígslubiskupskjöri í Skálholti.
Kosningu til embættisins lauk föstudaginn 9. apríl og talning fór fram í dag. Á kjörskrá eru 151 maður. Kjörsókn var 98.6%.
Atkvæði féllu þannig:
Sigrún Óskarsdóttir 40 atkvæði
Jón Dalbú Hróbjartsson 35 atkvæði
Agnes M. Sigurðardóttir 34 atkvæði
Kristján Valur Ingólfsson 27 atkvæði
Karl V. Matthíasson 12 atkvæði
Auðir seðlar 1
Þar sem enginn frambjóðandi fékk meirihluta greiddra atkvæða verður kosið að nýju milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði.
Sr. Sigrún Óskarsdóttir er fædd árið 1965. Hún var vígð árið 1991 sem aðstoðarprestur í Laugarnesprestakalli. Hún hefur einnig þjónað sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum, framkvæmdastjóri ÆSKR, prestur í norsku kirkjunni og prestur íslenska safnaðarins í Noregi. Hún þjónar nú sem prestur í Árbæjarkirkju.
Sr. Sigrún sagði í samtali við kirkjan.is þegar úrslitin höfðu verið kynnt: „Ég er glöð og þakklát fyrir þennan góða stuðning. Ég er þakklát Guði fyrir að gefa mér heilsu og kjark og þakklát fjölskyldu minni og öllum þessu frábæru vinum sem hafa stutt mig og legg bjartsýn upp í næsta áfanga.“
Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson fæddur árið 1947. Hann var vígður skólaprestur Kristilegra skólasamtaka árið 1974. Jón hefur einnig þjónað sem sóknarprestur í Laugarnessprestakalli og þjónað söfnuðum Íslendinga í Gautaborg og Osló. Hann þjónar nú sem sóknarprestur í Hallgrímskirkju og gegnir jafnframt prófastsstörfum í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
Sr. Jón Dalbú sagði í samtali við kirkjan.is: „Það gleður mig að hafa fengið þennan góða stuðning. Nú heldur ferlið áfram samkvæmt settum reglum og þá verður ljóst hver fer í Skálholt. Ég gef kost á mér og lít á embætti vígslubiskups sem mjög áhugaverða þjónustu í kirkjunni okkar og bíð spenntur að sjá hver niðurstaðan verður.“
Síðari umferð kosningarinnar fer fram í maí.
Nýr biskup verður vígður á Skálholtshátíð í júlí.