Kosið um nafnabreytingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Í Þjórsárdal. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að boða til íbúakosningar um mögulega nafnabreytingu á sveitarfélaginu. Kosningin mun fara fram samhliða forsetakosningunum þann 1. júní næstkomandi.

Að mati Haraldar Þórs Jónssonar, sveitarstjóra, er mikilvægt að breyta nafni sveitarfélagsins, þar sem nýtt nafn beri sterkari tengingu til staðsetningar á Íslandi, sé þjálla í notkun og gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa ímynd sveitarfélagsins til framtíðar.

Gunnar Örn Marteinsson sat hjá við afgreiðslu tillögunnar en hann sér ekki ástæðu til að breyta um nafn á sveitarfélaginu. „Verði farið í þá vegferð tel ég að óska eigi eftir hugmyndum að nafni og síðan verði valdar tvær eða þrjár hugmyndir og kosið um þær,” segir Gunnar.

Sveitarstjórn samþykkti að boða til íbúafundar í mars, þar sem málið verði kynnt og rætt.

Síðast kosið um nafn árið 2016
Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur sameinuðust vorið 2002 og fékk nýstofnaður hreppur nafnið Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Síðast var kosið um nafn á sveitarfélagið í janúar 2016 og þá fékk nafnið Skeiða- og Gnúpverjahreppur rúm 53% atkvæða en tæp 22% kusu nafnið Þjórsársveit. Eftir umfjöllun og úrskurð Örnefnanefndar var auk þess kosið um nöfnin Eystribyggð, Eystrihreppur, Þjórsárbakkar, Þjórsárbyggð og Þjórsárhreppur.

Fyrri greinGul viðvörun á Suðausturlandi
Næsta greinUmhverfismat kynnt á opnu húsi