Kosið verður um sameiningu Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps samhliða Alþingiskosningunum í haust.
Unnið er að verkefninu undir nafninu Sveitarfélagið Suðurland en oddvitar sveitarstjórnanna fimm hafa á síðustu dögum átt fjarfundi með þingflokkum á Alþingi. Á fundunum hafa þau kynnt verkefnið og svarað spurningum þingmanna, en meginmarkmiðið var að kynna áherslur sveitarstjórnanna.
Tilraunaverkefni um vegabætur
Í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Suðurlandi segir að tryggar samgöngur séu grunnur að því að vel takist til við mögulega sameiningu sveitarfélaganna fimm, og að íbúar sjái tækifæri í því að samþykkja tillögu um að sameinast um landstærsta sveitarfélag landsins.
Á fundunum með þingflokkunum lögðu oddvitarnir áherslu á að ástand héraðs- og tengivega standi uppbyggingu fyrir þrifum og skerði lífsgæði íbúa. Stóraukið viðhald og markviss uppbygging vega eru meðal forgangsverkefna í stefnumótun svæðisins í samgöngumálum og var farið fram á að Sveitarfélagið Suðurland verði tilraunasveitarfélag í samstarfi við Vegagerð og samgönguráðuneytið við forgangsröðun og uppbyggingu héraðs- og tengivega. Lagt var til að tilraunaverkefnið fái til þess fjármagn sem samsvarar stóru samgönguverkefni, eða um 10 milljarða króna.
Lífæðin er bæði styrkleiki og veikleiki
Auk þess var dregið fram að Þjóðvegur 1 er lífæð samfélagsins og einn helsti styrkleiki svæðisins, en ástand hans er líka einn helsti veikleikinn.
„Öryggismál eru í forgangi og brýnt að útrýma einbreiðum brúm og breikka veginn á þekktum slysaköflum. Breikkun þjóðvegarins og nýr láglendisvegur með jarðgöngum í gegnum Reynisfjall er brýnt hagsmunamál fyrir landsmenn alla, og íbúa og atvinnulíf á svæðinu,“ segir ennfremur í tilkynningunni frá Sveitarfélaginu Suðurlandi.