Kosning til embættis vígslubiskups í Skálholti hófst í dag. Kjörstjórn sendi kjörseðla til kjörmanna í morgun.
Kjöri verður lokið föstudaginn 8. apríl nk. Gert er ráð fyrir að talið verði miðvikudaginn 13. apríl og að niðurstöður liggi fyrir samdægurs. Fimm prestar eru tilnefndir í kjörinu. Á kjörskrá eru 151, bæði prestar og leikmenn.
Réttkjörinn vígslubiskup er sá, sem fær meirihluta greiddra atkvæða. Ef enginn fær þann atkvæðafjölda er kosið að nýju milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði. Ef kemur til annarrar umferðar í vígslubiskupskjörinu er gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir í lok apríl.
Fimm prestar eru tilnefndir í kjörinu; sr. Agnes M. Sigurðardóttir, prófastur í Vestfjarðaprófastsdæmi, sr. Jón Dalbú Hróbjartsson, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sr. Karl V. Matthíasson, vímuvarnarprestur, sr. Kristján Valur Ingólfsson, sóknarprestur á Þingvöllum og verkefnisstjóri á Biskupsstofu og sr. Sigrún Óskarsdóttir, prestur í Árbæjarkirkju.
Frestur til að tilnefna vígslubiskupsefni rann út 22. mars sl. Að baki hverri tilnefningu eru lágmarki 15 kjörmenn (10 prósent þeirra sem eru á kjörskrá).
Nýr vígslubiskup verður vígður á Skálholtshátíð 17. júlí næstkomandi.