Öflugur jarðskjálfti varð klukkan 16:56 í sjálfum Þrengslunum, norðan við Stóra-Meitli. Fyrsta mat á stærð skjálftans var 4,7 en endanleg yfirfarin mæling Veðurstofunnar segir 4,8. Veðurstofan segir að búast megi við eftirskjálftavirkni í kjölfarið.
Landeyingar rugguðu
Samkvæmt upplýsingum frá fremstu heimildarmönnum sunnlenska.is fannst skjálftinn vel á öllu Suðvesturhorninu, allt frá Akranesi austur í Mýrdal. Þannig rugguðu Landeyingar til að mynda við eldhúsborðið sitt og skjálftinn fannst einnig vel á Skeiðunum og í Mjóanesi við Þingvallavatn.
Stóð ekki á sama
Berglind Kristinsdóttir í Gerðakoti í Ölfusi fann skjálftann vel, enda búsett rúma 9 kílómetra frá upptökum hans. „Ég var í eldhúsinu og synir mínir sátu í sófanum í stofunni og mér brá það mikið að ég gólaði á þá að fara undir borð,“ segir Berglind og bætir við að sem betur fer hafi skjálftinn verið frekar stuttur en henni stóð ekki á sama. „Ég hef ekki fundið fyrir svona stórum skjálfta síðan stóri Suðurlandsskjálftinn reið yfir, enda erum við nálægt upptökunum á þessum.“
Hlutir hreyfðust í skápum
Upptök skjálftans eru sextán kílómetra norðan við Þorlákshöfn og að sögn Guðna Þórs Þórðarsonar fannst hann mjög vel í bænum. Guðni telur að skjálftinn hafi staðið í 4-5 sekúndur og hlutir í skápum hafi hreyfst til og ofnar titruðu.
Viðbúinn að hlaupa út
Hvergerðingar fóru ekki varhluta af skjálftanum og í Gróðurhúsinu féllu hlutir niður úr hillum. Hveragerði er tólf kílómetra austan við skjálftamiðjuna. Guðleifur Werner Guðmundsson, íbúi í bænum, segir að skjálftinn hafi verið mjög harður og miklar drunur hafi fylgt honum. Hann hafi verið viðbúinn því að hlaupa út með son sinn í fanginu. „Það nötraði allt húsið og glerskápurinn með stellinu söng í takt,“ sagði Guðleifur.
Kosningaskjálfti í Flóanum
Um sannkallaðan kosningaskjálfta er að ræða en sunnlenska.is hefur ekki fengið tíðindi af því að skjálftinn hafi haft áhrif í kjördeildum. Þó mátti litlu muna á kjörstað í Félagslundi í Flóahreppi að kjósandi hafi titrað það mikið að x-ið lenti í röngum reit.
Mikil jarðskjálftavirkni á Reykjanesi
Í vikunni hefur verið mikil virkni austar á Reykjanesskaga og mest úti við Reykjanestá en ekki er ljóst hvort þessi skjálfti tengist þeim hræringum.