Kostnaðurinn við verkefnið Jól í Árborg stendur nú í tæpum tveimur milljónum króna en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á að hámarki eina milljón.
Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi S-lista í bæjarráði, spurðist fyrir um kostnaðinn við verkefnið og fékk svör á bæjarráðsfundi í gær.
Áætlaður útlagður kostnaður við verkefnið þann 17. desember sl. var 1.995.155 kr. Stærstu kostnaðarliðirnir voru fjárfestingar; ljósaseríur og fígúrur upp á 600 þúsund, auglýsingar 510 þúsund og leiga á hljóðkerfi 450 þúsund.
Þá er kostnaður við viðburðadagatal sem dreift var inn á heimili í Árborg rúmar 380 þúsund krónur, þar af eru 138 þúsund í hönnunarkostnað.
„Þessar tölur eru komnar langt umfram það sem kostnaðaráætlun sem samþykkt var í bæjarráði í haust hljóðaði uppá. Reyndar var sú áætlun mjög fljótandi, að lágmarki 500 þúsund og að hámarki ein milljón,“ sagði Eggert Valur í samtali við sunnlenska.is. „Kostnaðurinn virðist því farinn verulega úr böndum þrátt fyrir að bæjarráð hafi bókað og áréttað sérstaklega að halda verkefninu innan áætlunar.“
Eggert Valur bætir við að inn í tölurnar sem lagðar voru fram á fundinum vanti stærsta liðinn sem er vinna bæjarstarfsmanna við verkefnið. „Þetta eru heldur ekki endanlegar tölur því verkefninu er ekki lokið. Ég mun kalla eftir þeim eftir áramót,“ sagði Eggert Valur ennfremur. „Þetta er miður og ekki til eftirbreytni varðandi önnur og stærri verkefni á vegum sveitarfélagsins.“
Eyþór Arnalds og Elfa Dögg Þórðardóttir, fulltrúar meirihlutans, lögðu fram bókun í bæjarráði þar sem þau sögðu að kostnaðaráætlun hafi verið of lág og er það miður. Hins vegar hafi framtakið almennt gengið vel og verið þátttakendum til sóma.